London heillar

Það er að því er virðist endalaust úrval af veitingastöðum í London. Sumir koma og fara. Aðrir eru alltaf jafnvinsælir og sumir meira að segja alltaf jafngóðir.

Hótelið St. Martins Lane við samnefnda götu er í miðju leikhúshverfinu í Covent Garden, ofursvalt hótel hannað af Ian Schrager. Hann hafði getið sér gott orð sem hönnuður lúxushótela í Bandaríkjunum og St. Martins Lane var fyrsta hótelið í Evrópu sem hann hannaði. Hönnuninn einkennist af hinum stílhreina mínímalisma tíunda áratug síðustu aldar, við Íslendingar myndum líklega kalla þann stíl „alveg rosalega 2007“. Sú lýsing á raunar einnig við um veitingastaðinn Asia de Cuba sem er að finna inni á hótelinu. Ofursvalur staður þar sem menn koma til að sýna sig og sjá aðra, ekki síður en til að borða. Það á líka við um hinn vinsæla Light Bar í næsta herbergi við.

Staði með sama nafni er nú einnig að finna víðar, m.a. í New York, og eins og nafnið gefur til kynna er matargerðin blanda af aðferðum og hráefnum frá Asíu og Suður-Ameríku og Karíbahafi.

Staðurinn iðar af lífi, tónlistin er fremur há og maturinn yfirleitt virkilega góður. Skammtarnir eru risavaxnir og það er því tilvalið fyrir hópa að skipta réttum á milli sín og smakka af sem flestum diskum. Fyrir fjóra er yfirdrifið nóg að panta þrjá forrétti og þrjá aðalrétti. Réttur á mann þýðir að leifa verður ansi miklu.

Þarna má t.d. fá önd „Ropa Vieja“ en þar er þessum klassíska spænsk/kúbanska rétti blandað saman við kínversku Peking-öndina og Hoi-Sin-sósu. Eða þá „Mu Shu“ rækjur með ljúffengum kummin-pönukökum og chili-miso-sósu. Af aðalréttunum var það ekki síst kúbanskur BBQ-kjúklingur sem heillaði með mildum kókoshnetuhrísgrjónum og avókado-salsa.

Vínlistinn er góður og kokkteilarnir frábærir. Þjónustan virkar á köflum kaótísk en allt skilar sér hratt og vel. Asia de Cuba er ekki ódýr, en hann verður minna dýr eftir því sem fleiri eru og geta skipt á milli sín réttum. Gerið ráð fyrir 15-20 þúsund á mann fyrir kvöldverð með víni.

Wild Honey í Mayfair (12 St. George Street), steinsnar frá Oxford Circus, er um flest algjör andstaða Asia de Cuba. Nýfranskur og evrópskur í fáguðum veitingasalum með dökkum eikarpanel á veggjum. Japönsk áhrif í hönnun létta hins vegar upp staðinn.

Staðurinn er rekinn af sömu aðilum og halda úti veitingastaðnum Arbutus og líkt og sá staður hefur Wild Honey nýlega áskotnast Michelin-stjarna.

Þarna er ekki ys og þys líkt og á Asia de Cuba heldur rólegt og lágstemmt andrúmsloft.Það er raunar einkennandi fyrir matargerðina líka. Hún er fáguð, mild og dregur fram bragð einstakra hráefna með frábærum hætti. Rófusalat var hreinasta unun og íslenskur þorskur (sérstaklega tekið fram á matseðli hvaðan hann kæmi) var létteldaður í mildri skelfiskssósu. Skoskt nautakjöt var hægeldað, nánast í mauk, þannig að það hefði mátt borða með skeið. Með því fullkomin kartöflumús og bragðmikil soðsósa. Ostaúrvalið er hreinlega frábær.

Vínlistinn á Wild Honey er lítill en mjög vel valinn og tiltölulega ódýr miðað við London. Ekki spillir heldur fyrir að öll vín eru fáanleg í 25 cl karöflum. Þjónustan fáguð og þægileg. Verðlagið virkilega hagstætt, ekki síst fyrir Michelin-stjörnu stað. Hádegisverður er á 25 pund fyrir þrjá valfrjálsa rétti af seðli.

Fyrir þá sem una indverskri matargerð er enginn skortur á góðum stöðum. Líklega er hvergi í heiminum hægt að finna eins marga hágæða indverska matsölustaði og í London. Einn þeirra sem hefur vekið hvað mest umtal er Amaya í Knigthsbridge (Alkin Arcade, 15 Motcomb Street) enda einn örfárra indverska staða sem hefur öðlast hina eftirsóttu Michelin-stjörnu. Staðurinn er nútímalegur í allri hönnun og opið eldhúsið setur sterkan svip sinn á hann. Þjónustan er sæmileg og maturinn góður –  hins vegar ekki eins góður og á Austur-Indía.

 

 

Deila.