Lambalæri er líklega vinsælasta sunnudagssteik Íslendinga. Hér er hún krydduð með svolítið grískri aðferð, fullt af hvítlauk ásamt kryddjurtum og sítrónu.
- 1 lambalæri
- 1 sítróna
- 1 hvítlaukur
- 3 msk fínsaxað, ferskt rósmarín
- 1 msk þurrkuð salvía
- nýmulinn pipar
- Maldonsalt/sjávarsalt
Hreinsið utan af hvítlauksgeirunum og saxið þá fínt. Fínsaxið rósmarín.
Skerið nokkrar grunnar raufar í lærið þversum. Pressið safann úr sítrónunni yfir lærið og nuddið því upp úr safanum. Blandið kryddjurtunum og hvítlauknum saman og nuddið vel inn í lærið. Nuddið vel af salti og pipar inn í lærið. Látið standa við stofuhita í um 30 mínútur.
Setjið á fat og inn í 200 gráðu heitan ofn. Eftir um hálftíma er hitinn lækkaður í 175 gráður og lærið eldað í um klukkustund í viðbót. Athugið þó að stærð lærisins skiptir máli. Hér er miðað við 2,2-2,5 kílóa læri sem ætti að vera fulleldað, um medium rare og vel það miðað við þennan tíma. Takið lærið út úr ofninum og látið standa í um 15 mínútur áður en að það er sneitt niður.
Gott meðlæti væru t.d. kramdir tómatar og rósmarínkartöflur.
Með þessu gott suður-evrópskt rauðvín á borð við E. Guigal Cotes-du-Rhone eða Muga Reserva.
Skráðu þig á póstlistann okkar með því að smella hér og fáðu reglulegt fréttabréf með nýjustu vínunum, uppskriftunum og veitingahúsunum.