Borgin opnaði nýlega og er Hótel Borg, elsta glæsihótel Íslands, því á ný orðin einn af spennandi valkostum í veitingahúsaflóru höfuðborgarinnar. Og Borgin er ekki bara matsölustaður heldur líka spennandi bar þar sem Ólafur Örn Ólafsson, áður á Dill og Slippbarnum að ekki sé nú minnst á Masterchef á Stöð 2, ræður ríkjum ásamt öflugu liði. Við fengum Ólaf til að setja saman nokkra af vinsælustu drykkjunum á kokteillista Borgarinnar.
Kokteilarnir eru frumlegir og djarfir en byggja oft á klassískum grunni. Hipster Hopper er til dæmis tilbrigði við hinn klassíska Grasshopper þar sem notað er Fernet Branca og kemur síst verr út en frummyndin. Annar klassískur drykkur sem flestir kannast við er Irish Coffee en á Borginni er honum smellt saman við annan klassískan drykk, Whiskey Sour, og úr verður Irish Coffee Sour. Þarna er írska Jameson’s vískýið á sínum stað en líka sítróna og eggjahvíta.
Fyrir þá sem unna góðum ginkokteilum er fátt betra en Dry Martini. Á Borginni er boðið upp á drykkinn Göngutúr í skóginum þar sem það konsept er þróað frekar og meðal annars notaður íslenski birkilíkjörinn Björk.
Vinsælasti drykkurinn á kokteillistanum er hins vegar The Claw sem dregur nafn sitt af humarkló sem notuð er til að skreyta drykkinn. Klóin er Margarita-tilbrigði með sírópi sem þeir á Ólafur Örn og félagar gera úr sölum og saltið á röndinni er nýjasta afurðin frá Reykjanes Saltverki, svarta Lava-saltið, sem er svert með kolum. Magnaður drykkur.