Ótrúlegur Ribeye-borgari með magnaðri sósu

Þetta er alvöru sælkeraborgari þar sem farið er alla leið. Ekkert hakk heldur fínasta Ribeye-nautakjöt sem er saxað í borgara. Þið fáið ekki betri borgara. Með þessu síðan ótrúlega góð hamborgarasósa.

  • 600 g (a.m.k.) Ribeye eða Entrecote
  • 2 sneiðar beikon
  • salt og pipar

Byrjið á því að skera kjötið í litla bita. Setjið inn í frysti í um 30 mínútur. Þá er matvinnsluvélin dregin fram og kjötið sett út í ásamt 2 sneiðum af beikoni. Saxið mjög varlega í matvinnsluvélinni. Það á alls ekki að mauka kjötið heldur rétt að saxa það í sundur. Best er að nota „pulse“.

Saltið og ekki síst piprið. Mótið fjóra væna borgara. Geymið þá í ísskáp þar til að þeir eru grillaðir eða steiktir.

Hamborgarasósa

  • 2 dl sýrður rjómi/majonnes
  • 1 dl tómatsósa
  • 1 dl sýrðar gúrkur, saxaðar fínt
  • 1 rauður chilibelgur
  • 1 væn msk hvítvínsedik
  • salt og pipar

Saxið gúrkurnar og chilibelginn mjög fínt. Það má líka gera í matvinnsluvél. Við notuðum þennan líka afbragðsgóða íslenska chili frá garðyrkjustöðinni Akur sem við rákumst á. Pískið saman tómtatsósuna og sýrða rjóman og/eða majonnesið. Það má nota annaðhvort eða blöndu af báðum, allt eftir ykkar smekk. Við notum yfirleitt sýrðan rjóma með kannski matskeið eða svo af majonnesi saman við. Blandið gúrkunum/chili saman við. Bragðið til með edikinu, salti og pipar. Geymið í ísskáp.

Það þarf líka að hafa góð heimabökuð hamborgarabrauð.

Smellið hér til að fá uppskriftina að þeim.

Þá er komið að því að klára dæmið. Setjið borgarana á grillið og grillið í um 3-4 mínútur á annarri hliðinni. Snúið þeim þá við og setjið ost ofan á. Grillið áfram undir lokið í um 3 mínútur. Athugið þá hvort að borgararnir séu ekki klárir (ættu að vera um medium rare ef grillið er mjög heitt) og osturinn bráðnaður.

Á meðan borgararnir eru á grillinu er niðursneiddur rauðlaukur og niðursneiddir sveppir mýktir á pönnu. Setjið beikonsneiðar á smjörpappír á ofnplötu og eldið í 220 gráða heitum ofni.

Rauðlaukur og sveppir steiktir

Skerið brauðin í tvennt, setjið á grillið í um eina mínútu með skurðhliðina niður. Takið af. Smyrjið vel af hamborgarasósunni á. Setjið þá hamborgara ofan á og síðan lauk/sveppablöndu, beikonsneið og lokið borgaranum og þrýstið aðeins á hann.

 

 

Fleiri uppskriftir að hamborgurum eru svo hér.

Deila.