Kakan hans Gosa – sænsk marengsterta

Kakan hans gosa eða Pinocchiotårta er ein af vinsælustu marengstertum Svía. Botninn er raunar bæði svampbotn eða það sem Svíar kalla Sockerkaka og marengs, báðir botnarnir bakaðir saman. Það má hafa hana á einni hæð eða tveimur og sömuleiðis er hægt að gera hringlótta Gosaköku, skreytta með jarðarberjum eða hindberjum.

Botninn:

  • 100 g smjör
  • 1,5 dl sykur
  • 5 eggjarauður
  • 2 dl hveiti
  • 1/2 dl mjólk
  • 2 tsk lyftiduft

Marengs

  • 5 eggjahvítur
  • 2,5 dl sykur
  • 1-2 dl möndluflögur

Þeytið saman smjör og sykur og bætið síðan eggjarauðunum við, einni og einni í einu. Haldið áfram að þeyta á meðan mjólkinni er blandað saman við. Blandið hveiti og lyftiduft saman og hrærið út í.

Setjið bökunarpappír á plötu og smyrjið deigið út í ca 30 x 40 sm.

Stífþeytið eggjahvíturnar ásamt helmingnum af sykrinum. Bætið afganginum af sykrinum saman við og þeytið í smástund. Smyrjið ofan á botninn og sáldrið möndluflögunum yfir.

Bakið í 40 -45 mmínútur, neðarlega í ofninum við 150 gráður eða þar til marengsinn fer að verða brúnn.

Þeytið 2,5 dl rjóma (má vera meira – allt eftir smekk). Þegar rjóminn er fullþeyttur er 1/2 tsk af vanillusykri þeytt saman við.

Gosakaka

 

Smyrjið rjómanum á botninn og skreytið með jarðarberjum eða hindberjum. Það er líka hægt að skera botninn í tvennt og hafa kökuna á tveimur hæðum.

 

Deila.