Ítölsk sumarpizza

Þegar ég fékk fyrst svona pizzu á Ítalíu fékk hugtakið pizza alveg nýja vídd. Fersk og full af grænmeti, klettasalati, tómötum og svo auðvitað parmaskinku, parmesan og ferskum basil.

Þetta er frábær sumarréttur til að njóta af í hádegissólinni eða kvöldsólinni út á palli.

Fyrst er það auðvitað pizzadeigið sem er minna vesen en margir vilja halda. Þetta er uppskrift sem ég nota yfirleitt, allar magntölur eru “sirka” enda þarf maður ekki að mæla þetta upp á grammið:

Hitið 3 dl af vatni í örbylgjunni þannig að það verði vel volgt. Bætið út í einu bréfi af þurrgeri, teskeið af sykri, klípu af salti og skvettu af olíu hrærið vel saman.

Setjið 6-7 dl af hveiti í skál. Ég nota yfirleitt til helminga venjulegt hveiti og fínmalað spelt. Hvað venjulega hveitið varðar þá er Europris-hveitið sterkjumikið og hentar betur en flest önnur í svona bakstur.

Blandið gerblöndunni saman við hveitið og látið deigið lyfta sér í rúman hálftíma á volgum stað.

Setjið smá hveiti saman við deigið og hnoðið það vel. Það á verða teygjanlegt og auðvelt meðferðar, þannig að maður geti nánast togað það og teygt að vild.

Mótið deigið á plötuna sem þið ætlið að nota.

Penslið deigið með ólívuolíu og setjið síðan eina dós af maukuðum tómötum út á. Maukuðu Ítalíu tómatarnir frá Hagkaup eru mjög góðir.  Kryddið með óregano.

Setjið inn í 220 gráða heitan ofninn. Bakið þar til pizzan er orðin stökk og flott – tekur um fimmtán mínútur.

Þegar pizzan er fullbökuð er hún tekin út og á hana bætt ríkulega af klettasalati, þá tómatasneiðum, síðan er hún þakin með sneiðum af parmaskinku. Rífið parmesan-ost yfir með grófu rifjárni, klippið niður nokkur basilblöð og hellið loks bestu ólívuolíunni ykkar yfir.

Með þessu þarf ungt og gott vín frá Miðjarðarhafssvæðinu. Ég mæli með Tenuta Sant Antonio Valpolicella eða hinu franska La Vieille Férme.

Deila.