Heitir í London: Nopi, Dishoom og Polpo

Yotam Ottolenghi er Ísraeli að uppruna og hóf starfsferill sinn sem blaðamaður á dagblaðinu Haaretz. Eftir að hafa lokið námi í heimspeki við hollenskan háskóla fluttist hann til Bretlands og nam hálft ár við matreiðsluakademíuna Le Cordon Bleue. Hann starfaði sem eftirréttakokkur á nokkrum veitingastöðum en opnaði loks staðinn Ottolenghi í Notting HIll árið 2002. Staðirnir eru nú orðnir fjórir og að auki hefur Ottolenghi öðlast miklar vinsældir sem dálkahöfundur um mat í Guardian og gefið út matriðslubækur sem náð hafa metsölu víða um heim.

Nýjasti staður Ottolenghis heitir Nopi og er í Soho, nánar tiltekið við Warwick Street, steinsnar frá Regent Street. Ég áttaði mig allt í einu á því að ég hafði áður komið í þetta saman húsnæði fyrir um áratug þegar að ég snæddi á The Sugar Club sem þá var rekinn á þessum sama stað.

Hingað til hafa Ottolenghi-staðirnir verið eins konar deli þar sem hægt er að kaupa mat, aðallega sætindi og grænmetisrétti, til að taka með út. Nopi er hins vegar „alvöru“ veitingastaður. Yfirbragð staðarins er ljóst og bjart, nánast eins v baðherbergi. hvítar flísar og veggir, borð og stólar úr ljósum við. Í kjallaranum er opið eldhús.

Matargerðin er í sama stíl og hefur aflað Ottolenghi svo mikilla vinsælda – blanda af brögðum og litum Miðausturlanda og Miðjarðarhafsins. Brögðin ágeng, framandi, spennandi og tælandi. Samsetningarnar frumlegar og forvitnilegar. Hver einasti réttur opnaði nýjan bragðheim, hvort sem að það voru steiktar kúrbítsbollur með kardimommujógúrt, grillað eggaldin með kóríanderpestó, feta og valhnetum eða grísamagi með svörtum baunum. Þjónustan látlaus og fagmannleg, vínlistinn stuttur en eins og annað svolítið spennandi.

Indland var lengi djásnið í krúnu breska heimsveldisins og óvíða eru fleiri góðir indverskir veitingastaðir en í London. Við höfum áður fjallað um Amaya og Tamarind en í þetta skiptið var stefnan tekin á einn af heitari indversku stöðunum þessa stundina, Dishoom á Upper St. Martins Lane  í Covent Garden (við hliðina á Jamie’s Italian).

Dishoom

Það eru ekki teknar borðapantanir eftir sex og það má alveg gera ráð fyrir því að þurfa að standa í röð í 20-30 mínútur áður en að maður fær borð. Það er hins vegar vel þess virði. Dishoom skilgreinir sig sem Bombay Café og sækir innblástur til gömlu kaffihúsanna þar,  svartar og hvítar flísar á gólfinu og Bollywood-spjöld á veggjunum. Réttirnir eru litlir og það er um að gera að panta sem flesta á borið og deila, þeir eru ekki dýrir. Maturinn á Dishoom er nútímaleg útgáfa af indverskri matargerð, andrúmsloftið er afslappað og allt í lagi að borða með puttunum að hætti Indverja.

Polpo

Polpo á Maiden Lane í Covent Garden opnaði árið 2009 og síðan hefur annar staður í Soho bæst við. Þetta er lítill ítalskur staður, það er auðvelt að labba fram hjá honum án þess að taka eftir honum en það er svo sannarlega þess virði að skima um eftir honum og setjast inn. Umgjörð staðarins er svolítið hrá og einföld og matargerðinni verður líklega best líst sem eins konar Veneto tapas með smá suður-ítölsku ívafi. Réttirnir eru litlir og er ágætt að taka 3-4 fyrir tveggja manna borð eða jafnvel fleiri (flestir kosta í kringum 5-6 pund). Ekki missa af kjötbollunum (það eru einar sex á matseðlinum) eða litlu pizzunum sem eru algjörlega lúffengar, Það eru ekki mörg vín á seðlinum en þau eru vel valin, öll ítölsk og flest hægt að fá í 25 cl og 50 cl karöflum eða þá 75 cl flösku.

Smelltu hér til að lesa um fleiri veitingahús í London.

Deila.