Cork & Bottle – klassík í London

Cork & Bottle er sá staður í London sem lengi hefur verið í hvað mestu uppáhaldi eða allt frá því að maður slæddist þangað fyrst inn með bresku kunningjafólki fyrir um tveimur áratugum. Það fer ekki mikið fyrir þessum stað og líklega hafa flestir þeir sem heimsótt hafa London gengið margsinnis fram hjá honum án þess að átta sig á því.

Cork and Bottle

Staðurinn er steinsnar frá Leicester Square í West End og inngangurinn lítilfjörlegur, var lengi vel við hlið einhvers konar klámbúllu, sem nú virðist hætt rekstri. Þeir sem rata á réttar dyr þurfa að ganga niður þröngan hringstiga og eru þá komin niður á Cork & Bottle. Það var Nýsjálendingurinn Don Hewittson sem opnaði staðinn árið 1972, það var líklega ekki gert af miklum efnum og innréttingarnar virðast ekki hafa breyst neitt síðan þá.

En þetta er einmitt sjarminn við Cork & Bottle. Staðurinn er svo langt frá því að vera tilgerðarlegur. En þarna í þröngri kjallarahvelfingunni er hins vegar að finna algjöra paradís fyrir vínáhugamenn. Vínlisti Cork & Bottle er engu líkur. „Handskrifaður“ og upplýsingar um vínin ekki hefðbundnar lýsingar – heldur margvísleg komment um hitt og þetta sem gefa misjafnlega mikla innsýn í hverju við er að búast af víninu. Og það vantar ekki vínin. Þarna er að finna forvitnileg vín frá öllum helstu svæðum og ekki síst er töluverður þungi þegar kemur að Nýja-Sjálandi og Ástralíu.

Cork and Bottle

Viðskiptavinirnir eru fjölbreyttur hópur, þarna er eins líkleg að sjá hóp af eldri hippum fá sér rauðvínsglas sem bankamenn í teinóttum fötum að fagna einhverju með kampavíni. Það er hægt að koma niður og fá sér eitt eða tvö glös af góðu víni og það er líka hægt að setjast niður hvenær sem er frá hádegi og langt fram á kvöld og fá sér að borða. Það er til skylda að fá sér hina klassísku osta og skinkuböku (ham and cheese pie) sem hefur verið  á matseðlinum frá því að ég kom þarna fyrst. Þetta er einhver matarmesti réttur sem hægt er að hugsa sér, Lag eftir lag af annars vegar þykkri skinku og hins vegar osti, bakað og borið fram með salati. Og svo eru það auðvitað ostarnir – en ostaborðið er með meira úrval en margar ostabúðir.

 

Lesið um fleiri staði í London með því að smella hér. 

 

Deila.