Montes heiðraður í Þýskalandi og Chile

Aurelio Montes hefur áratugum saman verið einn fremsti víngerðarmaður Suður-Ameríku en í fyrra voru 25 ár liðin frá því að hann stofnaði ásamt nokkrum félögum vínhúsið Montes. Á dögunum hlaut Aurelio Montes viðurkenningu frá þýska sælkeratímaritinu Feinschmecker fyrir framlag sitt til víngerðar (lifetime achievement award) og sömuleiðis frá Samtökum vín- og matarblaðamanna í Chile.

Bæði Feinschmecker og Chilean Food and Wine Writers Guild nefna sérstaklega frumkvöðlastarfsemi Montes á sviði þurrar ræktunar (dry farming) þar sem vínviðurinn er skilyrtur til að komast af með mun minna vatn en venjulega þarf við vínrækt. Með notkunar þessarar aðferðar er hægt að draga verulega úr vatnsnotkun en einnig bæta gæði vínanna, ræturnar þurfa að grafa sig neðar og vínin verða kröftugri og míneralískari. Vínin í Montes Alpha-línunni frá og með 2012-árganginum sýna afrakstur þessarar aðferðar.

Það má svo auðvitað rifja upp að Aurelio var staddur hér á landi haustið 2013 og hélt þá Master-Class smökkun í samstarfi við Vínótekið. Hér má sjá viðtal sem tekið var við hann í tengslum við þá smökkun.

Deila.