Vín áramótavikunnar

Þá er síðasta vika ársins að líða og kominn tími til að huga að áramótavínunum og við gerum það með áframhaldandi upprifjun af sumu af því besta sem við höfum smakkað á árinu.

Auðvitað þarf að vera eitthvað freyðandi  á gamlárskvöld og þar kemur margt til greina. Það eru alltaf einhver bestu kaupin í Cava-freyðivínum og með þeim betri sem við höfum smakkað á árinu var Anna de Codorniu. Það er líka tilvalið að vera með Prosecco til dæmis  Belstar Prosecco Brut  eða Freixent Brut, þetta ítalska freyðivín er fínn veisludrykkur og svo auðvitað ómissandi í drykki á borð við Aperol Spritz.  Og vilji menn alvöru Champagne þá er til nóg af þeim eins og til dæmis Mumm Cordon Rouge.

Við smökkuðum líka mörg góð hvítvín á árinu og það má nefna frábært Alsace-vín á borð við  Willm Clos Gaensbrennel Gewurztraminer eða þá Bramito Chardonnay frá Úmbríu á Ítalíu, hvítvín sem kemur manni alltaf á óvart hvað það er hrikalega flott miðað við verð.

Í rauðu var það Spánn sem hvað oftast kom manni skemmtilega á óvart með frábærum vínum. Af vínum sem hafa komið vel út á árinu má nefna Bodegas Áster  frá héraðinu Ribera del Duero og svo var einnig mjög ánægjulegt að sjá vín frá Toro koma sterkt inn eins og Matsu el Recio en það er svæði sem fólk ætti að hafa augun opin fyrir næstu árin. Rioja auðvitað stendur alltaf fyrir sínu. Þaðan komu til dæmis gamlir klassikerar í hús á ný eins og Marcues de Caceres Reserva en einnig frábær ny vín á borð við Cerro Anon og Baigorri. Annað vínhús frá Rioja sem kom aftur á íslenska markaðinn var hið stórkostlega Marques de Murriete, frábær Reserva og Gran Reserva og síðan ótrúlega flott ofurvín sem heitir Dalmau.

Spánverjarnir eru einstaklega góðir með nauti og það ætla greinilega margir að vera með nautalund Wellington um áramótin.

Nýjaheimsvínin geta einnig verið frábær með nautasteik og meðal vína sem má mæla með eru Hess Alloumi frá Napa í Kaliforníu og Montes Alpha Cabernet Sauvignon frá Chile.

Loks skulu nefnd tvö vín til viðbótar sem myndu sóma sér vel á veisluborðinu. Toskana-vínið Selvapiana Chianti Rufina sem er litla systkini hins stóra Bucherciale en engu að síður frábært vín.  Einnig heilluðumst við enn og aftur af Chapoutier Crozes-Hermitage, ótrúlega flottur framleiðandi með einhver bestu vín Rhone-dalsins. Þessi tvö eru tilvalin í villibráðina ekki síður en nautið.

 

Deila.